Yfirstandandi tímabil í Pepsi-deild karla hefur verið stórskemmtilegt og það endurspeglast í aðsókn á leiki deildarinnar.
Fram kemur á vef KSÍ að 1266 manns hafi mætt á leiki deilarinnar í sumar að meðaltali en mótið er nú hálfnað. Meðaltalið í fyrstu ellefu umferðunum í fyrra var 972 áhorfendur og er því um 30 prósenta aukningu að ræða.
Þetta er mesta aðsóknin á fyrri hluta Íslandsmótsins síðan að liðum í efstu deild var fjölgað í tólf. Þar til í ár var hún mest árið 2011 er 1223 áhorfendur mættu að meðaltali á hvern leik í fyrri umferð mótsins.
Tólfta umferð deildarinnar hefst á laugardag með leik Stjörnunnar og ÍA en á sunnudagskvöld verður stórleikur FH og KR, tveggja efstu liðanna, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Ekki fleiri á vellinum síðan að liðum var fjölgað
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
