Fram hefur fengið Davíð Einarsson að láni frá Fylki.
Davíð, sem er uppalinn KR-ingur, hefur aðeins komið við sögu í þremur deildarleikjum og einum bikarleik með Fylki í sumar.
Hann var ekki í leikmannahópnum í síðasta leik gegn FH en það var fyrsti leikur Fylkis undir stjórn Hermanns Hreiðarssonar sem tók við þjálfarastarfinu af Ásmundi Arnarssyni fyrr í þessum mánuði.
Davíð hefur einnig leikið með ÍR og Hetti hér á landi.
Fram veitir ekki af liðsstyrk en liðið er aðeins með 11 stig í 10. sæti 1. deildar, þremur stigum frá fallsæti.
Næsti leikur Fram er gegn KA á heimavelli á laugardaginn.

