Veðurstofan segir að nú sé vaxandi norðanátt vestanlands, 13 til 23 metrar á sekúndu með morgninum, en annars 5 til 13 metrar á sekúndu. Hvassara sé á stöku stað austast fram eftir morgni.
Hvassast sé hlémegin fjalla og hviður allt að 35 metra á sekúndu. Búast má við að lægir smám saman upp úr hádegi. Rigning verður á norðan- og austanverðu landinu en skýjað með köflum suðvestantil. Hitinn verður á bilinu 4 til 15 stig, hlýjast suðvestanlands en kaldast á annesjum fyrir norðan.
Uppfært 10.00:
Eftirfarandi fréttatilkynning barst frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu í morgun:
„Björgunarfélag Árborgar var kallað út rétt um kl. 9:30 í óveðursaðstoð á Selfossi. Veðurstofan varaði við miklum vindi síðastliðna nótt og fram eftir deginum í dag á Suðurlandi. Trampólín og annað laust dót er farið að fjúka um á Selfossi sem björgunarsveitarfólk er farið af stað til aðsækja og eða binda það niður. Það þarf ekki haustlægðirnar til að trampólín og fleira fari af stað.“