Það eru nú liðin 24 ár síðan að Margrét Sturlaugsdóttir tók síðast þátt í Smáþjóðaleikunum.
Margrét er aðstoðarþjálfari Ívars Ásgrímssonar alveg eins og í fyrrasumar en Margrét hefur einnig tekið við kvennaliði Keflavíkur og mun þjálfa liðið í Dominos-deildinni næsta vetur.
Margrét var með á bæði á Smáþjóðaleikunum á Kýpur 1989 og Smáþjóðaleikunum í Andorra 1991 en þetta var í tvö fyrstu skiptin sem íslenska kvennalandsliðið var með á Smáþjóðaleikunum.
Margrét vann silfur með liðinu á Kýpur 1989 og brons í Andorra tveimur árum síðar og getur nú vonandi fullkomnað safnið, það er með því að ná gullinu á leikunum í ár.
Margrét var aðeins önnur tveggja leikmanna sem spiluðu sex fyrstu leiki íslenska kvennalandsliðsins á Smáþjóðaleikum en hin var Anna María Sveinsdóttir.
Anna María Sveinsdóttir var einmitt aðstoðarþjálfari íslenska liðsins á Smáþjóðaleikunum í Lúxemborg fyrir tveimur árum.
Margrét skoraði 10 stig og tvær þriggja stiga körfur í þremur leikjum á Smáþjóðaleikunum á Kýpur 1989 og var síðan með 14 stig og eina þriggja stiga körfu Smáþjóðaleikunum í Andorra 1991.
Margrét skoraði tvær fyrstu þriggja stiga körfur íslenska kvennalandsliðsins á Smáþjóðaleikum sem komu báðar í sigurleik á móti Mónakó á Smáþjóðaleikunum á Kýpur 1989.
Stelpurnar okkar spila við Möltu í kvöld kl. 19.30 og síðan við Mónakó á fimmtudeginum 4. júní (klukkan 17.00) og svo lokaleikinn sinn á móti Lúxemborg á laugardeginum 6. júní (klukkan 13.30).
Margrét mætt á Smáþjóðaleika á ný eftir 24 ára fjarveru
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
