Sport

Brons og silfur í keppni með loftskammbyssu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ívar Ragnarsson er hér annar frá hægri.
Ívar Ragnarsson er hér annar frá hægri. Vísir
Ísland fékk tvenn verðlaun í keppni með loftskammbyssu á Smáþjóðaleikunum í dag.

Þeir Ívar Ragnarsson og Thomas Viderö voru í harðri samkeppni um gullið við Boris Jeremenko frá Mónakó sem sýndi stáltaugar í síðustu umferðunum og tryggði sér sigur.

Ívar endaði í öðru sæti með 190,7 stig, 2,9 stigum á eftir Jeremenko. Viderö, sem vann þessa keppni í Lúxemborg fyrir tveimur árum, varð þriðji með 171,7 stig.

Alls voru átta keppendur í úrslitum og datt einn keppandi úr leik eftir hverja umferð. Ívar og Thomas voru í forystu strax frá upphafi en Jeremenko var ávallt skammt undan.

Eftir fyrstu umferðina fengu keppendur aðeins tvö skot í hverri umferð og var því hvert þeirra afar dýrmætt. Það var svo í fjórðu umferð að Jeremenko náði fullkomnu skoti sem gefur 10,9 stig og komst hann þar með upp í efsta sæti.

Ívar var skammt undan en Thomas drógst á eftir. En Jeremenko sýndi miklar stáltaugar og hélt áfram að skjóta yfir 10 stigum í síðustu umferðunum. Að sama skapi fóru taugarnar að láta til segja hjá Ívari sem var undir níu stigum í þremur af fjórum síðustu skotunum sínum.

Ívar var næstum búinn að missa silfrið til Thomasar en allt kom fyrir ekki.

Þess ber að geta að Ólympíufarinn Ásgeir Sigurgeirsson keppir ekki á Smáþjóðaleikunum þar sem hann undirbýr sig nú fyrir keppni á heimsbikarmóti þar sem hann stefnir að því að tryggja sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Ríó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×