Matthildur Óskarsdóttir, fimmtán ára gömul kraftlyftingastúlka úr Gróttu, stórbætti árangur sinn í -72 kg flokki á HM unglinga í klassískum kraftlyftingum í gær.
Matthildur vigtaðist 64,80 kíló fyrir mótið og var því yngst og léttust í flokki telpna þar sem hún hafnaði í sjöunda sæti.
Fyrir mótið átti hún best 110 kg í hnébeygju, 60 kg í brekkpressu og 112,5 kg í réttstöðu.
Í Finnlandi í gær lyfti Matthildur 120 kg í hnébeygju, 67,5 kg í bekkpressu og 125 kg í réttstöðu og bætti samanlagðan árangur sinn úr 275 kílóum í 312,5 kíló.
Matthildur setti í heildina ellefu Íslandsmet með árangrinum í Finnlandi í gær og á nú þau öll í telpnaflokki.
Þessi efnilega íþróttakona hefur aðeins æft kraftlyftingar í 16 mánuði og virðist eiga framtíðina fyrir sér.
Fimmtán ára Gróttustelpa setti ellefu Íslandsmet í kraftlyftingum
Tómas Þór Þórðarson skrifar
