Ef ekki verður samið fyrir þann 28. maí næstkomandi munu verkfallsaðgerðir hefjast hjá félagsmönnum VR með tveggja daga verkföllum í senn, fyrst hjá starfsmönnum í hópbifreiðafyrirtækjum. Þann 6. júní mun svo hefjast ótímabundið allsherjarverkfall hjá öllum félagsmönnum VR, LÍV og Flóabandalagsins, ef ekki er samið fyrir þann tíma.
Þann sama dag mun að óbreyttu einnig hefjast ótímabundin vinnustöðvun hjá félagsmönnum Starfsgreinasambandsins (SGS), en þeir hafa farið í regluleg sólarhringsverkföll frá 30. apríl síðastliðnum. Félagsmenn VR, Flóabandalagsins, SGS og LÍV telja samtals um 65 þúsund manns og ljóst er að landsmenn myndu finna verulega fyrir svo víðtæku verkfalli.

Ferðaþjónusta og útflutningur illa úti
Samkvæmt áætlun um verkföll félagsmanna VR, LÍV og Flóabandalagsins mun koma til verkfalls starfsmanna í hópbifreiðafyrirtækjum 28. og 29. maí næstkomandi og dagana tvo þar á eftir til verkfalls starfsmanna á hótelum, gististöðum og baðstöðum.
31. maí og 1. júní verður svo verkfall starfsmanna í flugafgreiðslu og þannig útlit fyrir að aðgerðir komi harkalega niður á ferðamannaiðnaðinum um mánaðamótin. Óvíst er hvort þörf verði á að aflýsa öllum flugferðum í gegnum Keflavíkurflugvöll dagana sem starfsmenn flugafgreiðslu yrðu í verkfalli, en þeir sjá meðal annars um eldsneytisafgreiðslu og innritun farþega.
Dagana 2. og 3. júní mun svo að óbreyttu koma til verkfalls starfsmanna skipafélaga og matvöruverslana. Inn- og útflutningur skipafélaga gæti því lamast þessa daga með tilheyrandi kostnaði og óþægindum. Starfsmenn olíufélaga færu svo í verkfall síðustu tvo dagana áður en til allsherjarverkfalls kæmi.

Fyrir utan félagsmennina 65 þúsund sem gætu verið á leið í verkfall, hafa um 670 félagsmenn Bandalags háskólamanna (BHM) verið í ótímabundnu verkfalli frá 7. apríl síðastliðnum, auk þess sem starfsmenn Fjársýslu ríkisins eru á leið í ótímabundið verkfall þann 2. júní. Líkt og greint hefur verið frá, gætir áhrifa verkfalls BHM víða.
Meðal annars hefur verkfall dýralækna haft það í för með sér að slátrun á svínum, kjúklingum og nautum hefur nær stöðvast og kjötskorts gætt í verslunum og á veitingastöðum vegna þess. Þá er upp komin alvarleg staða á Landspítalanum vegna verkfalls geislafræðinga og lífeindafræðinga, en meðal annars hefur orðið veruleg röskun á meðferð krabbameinssjúkra.
Næsti fundur í samningaviðræðum VR, LÍV og Flóabandalagsins við SA hefur ekki verið boðaður. Forsvarsmenn SA hafa lýst því yfir að þó afleiðingar verkfalla verði alvarlegar fyrir launafólk, fyrirtæki og þjóðarhag, telji þeir að afleiðingarnar verði enn verri ef ítrustu kröfur verkalýðsfélaganna nái fram að ganga.