Keflvíkingurinn Þóranna Kika Hodge Carr var í gær valinn í úrvalslið Norðurlandamótsins í körfubolta en hún var ein af þeim fimm bestu hjá U16 kvenna.
Íslenska sextán ára landsliðið endaði í fimmta sæti af sex þjóðum en frammistaða Þórönnu var það góð að hún komst í úrvalsliðið.
Þóranna var með 14,0 stig og 6,0 fráköst að meðaltali á 28,6 mínútum í mótinu en hún hitti úr 59,6 prósent skota sína í leikjunum fimm.
Þóranna skoraði meðal annars 19 stig í leiknum á móti Norðurlandameisturum Svía en sænska liðið vann alla fimm leiki sína á mótinu.
Haukamaðurinn Kári Jónsson var valinn besti leikmaðurinn hjá 18 ára körlum en íslenska 18 ára landsliðið vann silfur á mótinu. Þóranna og Kári voru einu íslensku leikmennirnir sem komust í úrvalslið að þessu sinni.
Íslensku stelpurnar í 18 ára liðinu urðu í þriðja sæti og fengu því brons. Ísland vann því tvö verðlaun á Norðurlandamótinu að þessu sinni.
Þóranna komst í úrvalslið Norðurlandamótsins
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
