Körfubolti

Ætli Spike Lee sé búinn að gleyma þessum 8,9 sekúndum? | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Reggie Miller.
Reggie Miller. Vísir/Getty
8,9 sekúndur í Madison Square Garden 7. maí 1995 eru einhverjar þær mögnuðustu í sögu úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta og í dag er tuttugu ára afmæli skotsýningar Reggie Miller.

Reggie Miller skoraði þá 8 stig á 8,9 sekúndum í fyrsta leik Indiana Pacers og New York Knicks í undanúrslitum Austurdeildarinnar 1995,

Spike Lee, frægasti stuðningsmaður New York Knicks, var örugglega farinn að fagna sigri í leiknum þegar Knicks-liðið var 105-99 yfir og aðeins 18 sekúndur voru eftir af leiknum. Reggie Miller var ískaldur enda hafði hann klikkað á 11 af 16 skotum sínum.

Reggie Miller þurfti hinsvegar aðeins 8,9 sekúndur til að breyta leiknum, frá því að 16,4 sekúndur voru á klukkunnui til að það voru aðeins 7,5 sekúndur eftir breytti þessi mikla skytta stöðunni úr 105-99 í 105-107. Miller setti þá niður tvo þrista og tvö víti.

Frammistaða Reggie Miller hefur lifað meðal NBA-áhugamanna þessa tvo áratugi og er stór hluti af goðsögninni um Miller og New York Knicks.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af þessum ótrúlegu 8,9 sekúndum fyrir tuttugu árum og það er pottþétt að Spike Lee er ekki búinn að gleyma þessari skotsýningu enda skoraði Miller þessa tvo þrista nánast við hliðina á honum í Madison Square Garden.

Vísir/Getty
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×