Hiti getur náð allt að fimmtán stigum á norðan- og austanlands á morgun samkvæmt spá Veðurstofu Íslands. Samkvæmt textaspá Veðurstofunnar verður skýjað sunnan- og vestanlands og sumstaðar lítilsháttar væta á morgun en léttskýjað norðan- og austanlands.
Hiti 2 til 10 stig að deginum en 8 - 15 stig norðan- og austanlands á morgun.
Á föstudag er gert ráð fyrir sunnan- og suðvestanátt, 8 - 13 metrum á sekúndu, og rigningu sunnan- og vestanlands og hiti 3 til 9 stig. Heldur hægari um landið norðaustanvert, skýjað með köflum og hiti 6 - 12 stig.
Á laugardag og sunnudag á Veðurstofa Íslands von á suðlægri átt, 8 - 13 metrum á sekúndu, og súld með köflum sunnan- og vestanlands, en heldur hægari og bjart norðan- og austanlands. Hiti 4 - 14 stig að deginum, hlýjast fyrir norðan.
Eftir helgina má gera ráð fyrir kólnandi veðri.
Á mánudag verður suðlæg átt, dálitlar skúrir en bjartviðri norðan- og austanlands. Lítið eitt svalara. Á þriðjudag er útlit fyrir suðvestan og vestanátt með vætu, en þurru og björtu veðri austantil, heldur kólnandi.
Allt að 15 stiga hiti á morgun
Birgir Olgeirsson skrifar
