Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í París í dag þar sem kynntar voru þær myndir sem eru hluti af Cannes Official Selection í ár.
Útsendingu Canal+ frá blaðamannafundinum má sjá hér að neðan. Byrjað er að tala um myndir í Un Certain Regard flokki eftir 34:30 mínútur.
Un Certain Regard hluti Cannes kvikmyndahátíðarinnar var settur á laggirnar árið 1978 og frá og með árinu 1998 hefur verið keppt um „Prix Un Certain Regard“. Markmiðið með verðlaununum er að gera kvikmyndagerðarmönnum sem hafa gert kvikmynd sem hefur frumleika og hugrekki að leiðarljósi hátt undir höfði, m.a. með styrk til dreifingar á kvikmyndinni í Frakklandi.

Leikkonan heimsþekkta Isabella Rossellini verður forseti dómnefndar Un Certain Regard keppninnar. Rossellini mun í samvinnu við dómnefnd ákveða sigurvegara keppninnar og veitir svo persónulega aðalverðlaunin á verðlaunakvöldi hátíðarinnar þann 23. maí. Á meðal þekktra leikstjóra sem hafa sýnt myndir sínar í Un Certain Regard eru Gus Van Sant, Sofia Coppola og Steve McQueen.
Hrútar fjallar um tvo sauðfjárbændur á sjötugsaldri, bræðurna Gumma og Kidda, sem búa hlið við hlið í afskekktum dal á Norðurlandi. Fjárstofn þeirra bræðra þykir einn sá besti á landinu og eru þeir margverðlaunaðir fyrir hrútana sína. Þrátt fyrir að deila sama landi og lífsviðurværi þá hafa bræðurnir ekki talast við í fjóra áratugi.

Grímur Hákonarson leikstýrir og skrifar handritið að Hrútum. Aðalframleiðandi myndarinnar er Grímar Jónsson fyrir Netop Films og meðframleiðendur eru hin dönsku Ditte Milsted og Jacob Jarek fyrir Profile Pictures. Þá er Þórir Snær Sigurjónsson einn af framleiðendum myndarinnar. Framleiðslustjórn er í höndum Evu Sigurðardóttur.
Með aðalhlutverk fara Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson. Stjórn kvikmyndatöku er í höndum Norðmannsins Sturla Brandth Grøvlen og Kristján Loðmfjörð sér um klippingu myndarinnar. Tónlist myndarinnar er samin af Atla Örvarssyni og hljóðhönnun er í höndum Huldars Freys Arnarssonar.

Stjórnandi kvikmyndatöku Hrúta, Sturla Brandth Grøvlen, vann Silfurbjörn fyrir framúrskarandi listrænt framlag á Berlinale hátíðinni, sem lauk 15. febrúar. Verðlaunin hlaut hann fyrir kvikmyndatöku sína í Victoria, kvikmynd sem er 140 mínútur að lengd og er öll tekin upp í einni töku.
Þá hefur Atli Örvarsson tónskáld getið sér góðs orðs í Bandaríkjunum, þar sem hann hefur samið tónlist við fjöldan allan af þekktum kvikmyndum og þáttaröðum til fjölda ára. Þeirra á meðal eru kvikmyndirnar Vantage Point og Hansel & Gretel: Witch Hunters og þáttaraðirnar Law & Order: Criminal Intent, Chicago Fire og Chicago P.D.
Þá hefur Atli mikið unnið með tónskáldinu Hans Zimmer, m.a. við The Holiday, The Simpsons Movie og Man of Steel. Hérlendis hefur Atli t.a.m. samið tónlistina fyrir þáttaröðina Hraunið og þá samdi hann einnig tónlistina fyrir Blóðberg, nýja kvikmynd eftir Björn Hlyn Haraldsson.