Körfubolti

Hafa nú spilað fleiri leiki og unnið fleiri titla en heilaga þrenningin hjá Boston

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tony Parker, Tim Duncan og Manu Ginobili hafa spilað fleiri leiki saman en Robert Parish, Larry Bird og Kevin McHale.
Tony Parker, Tim Duncan og Manu Ginobili hafa spilað fleiri leiki saman en Robert Parish, Larry Bird og Kevin McHale. vísir/getty/afp
Tríóið ótrúlega hjá NBA-meisturum San Antonio Spurs; Tum Duncan, Manu Ginobili og Tony Parker, spilaði sinn 730. leik saman í nótt þegar liðið valtaði yfir Oklahoma City Thunder.

Með því bættu þeir félagarnir met heilagrar þrenningar Boston frá níunda áratug síðustu aldar, en Larry Bird, Kevin McHale og Robert Parish spiluðu 729 leiki saman fyrir Boston Celtics og stóð metið frá 1992.

Boston-þrenningin á enn metið yfir flesta sigra saman eða 540. Spurs-tríóið er grátlega nálægt þeim árangri með 536 sigra og þarf að vinna síðustu fjóra leiki tímabilsins til að jafna metið. Líklegt er að Spurs-menn komist ekki nær þar sem Duncan og/eða Ginobili leggja væntanlega skóna á hilluna í sumar.

Duncan, Parker og Ginobili hafa þó unnið fleiri titla saman en Boston-þrenningin. Bird, McHale og Parish unnu þrjá saman og Parish einn til viðbótar með Chicago, en Spurs-þrennan hefur unnið fjóra saman og Duncan þann fimmta með David Robinson árið 1999.

Eflaust verður deilt um hvort tríóið sé betra þar til fólk nær ekki lengur andanum og má fastlega búast við því að íþróttafréttamenn vestanhafs hefji þá umræðu strax í dag.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×