Spænsk hjón földu sig í sólarhring í ræstiklefa inni á Bardo-safninu í Túnisborg eftir að þeim varð ljóst að hryðjuverkamenn höfðu skotið fjölda fólks til bana á miðvikudaginn.
Faðir konunnar ræddi við blaðamenn í dag og sagði hjónin hafa falið sig í um sólarhring. Á þeim tíma hafi þau heyrt menn tala saman fyrir utan á arabísku, ekki vitandi hvort um hryðjuverkamenn eða lögreglu hafi verið að ræða. Lögreglukona opnaði loks hurðina og komu þau út í kjölfarið.
Í frétt Telegraph segir að hjónin hafi á þeim tíma sem þau lokuðu sig af ekki þorað að nota farsíma sína af ótta við hryðjuverkamennina.
Spænska sendiráðið í Túnis hóf leit að þeim Cristina Rubio og Juan Carlos Sánchez eftir að þeim var tilkynnt að þau höfðu ekki skilað sér aftur í skemmtiferðaskip sitt við bryggju í Túnisborg.
Cristina er ólétt, komin fjóra mánuði á leið, var flutt á sjúkrahús þar sem læknar hlúðu að henni.
Hjónin voru í brúðkaupsferð sinni.
