Innlent

„Passið ykkur á græðginni“

Höskuldur Kári Schram skrifar
Of mikil aukning á komu ferðamanna hingað til lands getur haft neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna og jafnvel leitt til samdráttar. Þetta segir bandarískur sérfræðingur í ferðaþjónustumálum. Landsbankinn telur að ferðamönnum muni fjölga um fjörutíu prósent á næstu þremur árum.

Um ein milljón ferðamanna kom hingað til lands á síðasta ári sem er tvöföldun miðað við árið 2010. Hagfræðideild Landsbankans spáir því að fjöldinn aukist um 400 þúsund á næstu þremur árum.

Fjallað var um stöðu og horfur í ferðaþjónustu á ráðstefnu Landsbankans í morgun en meðal fyrirlesara var Doug Lansky sem hefur meðal annars ritað ferðabækur fyrir Lonely Planet. Lansky segir nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar. Of mikil aukning ferðamanna geti haft neikvæð áhrif.

Sjá einnig: Ferðaþjónustan stærsta útflutningsgreinin

„Aðalástæða samdráttar í ferðaþjónustu er of mikill fjöldi ferðamanna. Þeir yfirfylla miðborgirnar.Við höfum öll kynnst þessu á ferðalögum.Þetta er ekkert skemmtilegt lengur. Maður vill hvorki standa í mannþröng í miðbænum né bíða í röð í þrjá tíma til að komast inn á safn. Það verður óþægileg upplifun í orlofinu sem fólk hefur sparað fyrir allt árið. Fólk vill eiga ánægjulega upplifun. Ef hún verður ekki ánægjuleg segja þeir vinum sínum frá því og koma ekki aftur,“ segir Doug Lansky.

Lansky segir að Íslendingar þurfi að gæta sín á því að fara ekki of geyst.

„Passið ykkur á græðginni. Ef eitthvað virðist of gott til að vera satt má ætla að svo sé. Best er að fara varlega, sýna yfirvegun, gera sér grein fyrir að ekki gengur að fjölga sífellt ferðamönnum og að fjölgunin verði tuttugu prósent á ári. Það verður að hægja á ferðinni, hafa stjórn á þróuninni og huga að sjálfbærni. Það mun skila sér í árangri um margra áratuga skeið. Ekki aðeins til tveggja eða þriggja næstu ára,“ segir Lansky.


Tengdar fréttir

Spá 1,6 milljónum gesta á Þingvöllum eftir tíu ár

Ferðamálastofa reiknar með að á bilinu 970 þúsund til 1,6 milljónir manna heimsæki Þingvöll á árinu 2025. Þingvallanefnd hugar að stækkun þjónustuhúss á Hakinu og uppbyggingu veitingaaðstöðu. Engin áform eru um að reisa nýtt hótel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×