Hátt í 300 manns frá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar eru nú í óveðursaðstoð víða um land en mest hefur verið að gera á höfuðborgarsvæðinu þar sem hátt í 200 beiðnir um aðstoð hafa borist í morgun.
Varmá í Mosfellsbæ flýtur yfir bakka sína og hafa töluverð vandamál skapast í bænum vegna þessa. Starfsmenn borgarinnar, Vegagerðin og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hafa verið við störf þar auk björgunarsveitarmanna.
Hér að ofan má sjá myndband sem myndatökumaður Stöðvar 2 tók í Mosfellsbæ í morgun. Miklir vatnavextir eru víðsvegar í Reykjavík og ljóst er að tjónið er töluvert. Neðst í fréttinni má síðan sjá myndband sem tekið var víðsvegar um höfuðborgina. Tjónið í borginni er mikið eftir þennan morgun.
Við Sundahöfn liggja fjörutíu feta gámar á víð og dreif og má ætla að töluvert fjárhagstjón verði af því.



