Rafsuðugler eru uppseld í BYKO en það var ein fárra verslana sem átti eintök eftir í dag þegar fréttastofa kannaði málið. Glerin eru notuð til að horfa á sólmyrkvann sem verður á morgun.
Samkvæmt upplýsingum úr verslun BYKO hafa öll glerin sem voru eftir fyrr í dag verið seld en verslunin fékk nýja sendingu af glerjum í gær. Var vonast til þess að hægt væri að anna eftirspurn með þeirri sendingu. Mikil spenna virðist vera fyrir sólmyrkvanum sem nær hámarki hér á landi rúmlega hálf tíu í fyrramálið.
Vísir greindi frá því í morgun að mikil eftirspurn væri eftir sólmyrkvagleraugum og að barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri hefðu í dag fengið tilboð í öll gleraugu skólans. Tilboðið hljóðaði upp á 5.000 krónur fyrir stykkið en þau kosta alla jafnan um 500 krónur.
Fyrir þá sem ekki verða sér úti um sólmyrkvagleraugu, rafsuðugler eða annað álíka til að geta horft á sólmyrkvann án þess að eiga í hættu á að skemma augun verður hægt að horfa á beina útsendingu af sólmyrkvanum hér á Vísi.
Hægt hefur verið að kaupa glerin í verslun Landvéla, heildversluninni Klif, J A K ehf, Fossberg og Gastec, samkvæmt upplýsingum fréttastofu.
