Vegagerðin hefur opnað Hellisheiði en þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.
Hálkublettir eru á Sandskeiði og hálka á Hellisheiði en krapi í Þrengslum. Snjóþekja og éljagangur er á Mosfellsheiði og hálka og snjóþekja í uppsveitum á Suðurlandi.
Vegfarendur eru beðnir um að fylgjast með upplýsingum um færð og veður.
Snýst í S- og SV-átt með éljum og krapaéljum sunnan- og vestanlands. Kólnar niður undir frostmark á láglendi og víða verður hált við þessar aðstæður þegar líður á daginn. Blint í éljum vestan til, einkum á fjallvegum s.s. á Holtavörðuheiði undir kvöld. Stormur síðdegis á Snæfellsnesi og þar hviður 30-40 m/s norðan til frá því um kl. 14 og fram á kvöld.
Flughált er á Krísuvíkurvegi. Hálkublettir og éljagangur er á Reykjanesbraut. Á Vesturlandi eru hálkublettir á flestum leiðum en krapi og skafrenningur á Bröttubrekku en hálka á Holtavörðuheiði. Krapi og éljagangur er á Vatnaleið en þungfært á Fróðárheiði og einnig er óveður á norðanverðu Snæfellsnesi.
Hálka eða snjóþekja er víða á Vestfjörðum og skafrenningur á fjallvegum. Ófært og óveður er á Hálfdán, Mikladal og Kleifaheiði. Snjóþekja og óveður er á Kletts- og Hjallahálsi. Hálka og óveður er í Ísafjarðardjúpi, Reykhólasveit og á Innstrandavegi.
Á Norðurlandi vestra er hálka og óveður í Húnavatnssýslu. Hálkublettir og mikið hvassviðri er á Vatnsskarði og Skagastrandarvegi. Hálka og óveður er á Siglufjarðarvegi. Hálka eða hálkublettir eru á Norðurlandi eystra og sumstaðar skafrenningur en ófært er á Dettifossvegi. Hálkublettir og mikið hvassviðri er á Mývatnsheiði og Mývatnsöræfum.
Það er hálka eða hálkublettir og sumstaðar éljagangur og skafrenningur á vegum á Austurlandi. Hálkublettir og mikið hvassviðri er á Möðrudalsöræfum og hálka og óveður á Vatnsskarði eystra. Greiðfært er frá Fáskrúðsfirði og með suðausturströndinni að Öræfasveit en þar taka við hálkublettir eða hálka.

