Rússland og Þýskaland hafa beðið Öryggis- og Samvinnustofnun Evrópu um að tvöfalda fjölda eftirlitsmanna í Úkraínu. Með þeirri breytingu yrðu alls þúsund manns sem fylgdust með því að vopnahléinu þar væri framfylgt.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlandss, og Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, fóru fram á þetta í dag, samkvæmt AFP fréttaveitunni.
Verkefni ÖSE á að ljúka þann 23. mars, en stofnunin þarf nú að ákveða hvort að lengja eigi verkefni og hvort að fjölga eigi eftirlitsmönnum.
Eftirlitsmenn verða á næstunni sendir á svæði þar sem vopnahléið hefur verið rofið og bardagar geisa enn. Um er að ræða tíu svæði og þar á meðal flugvöllinn í Donetsk, sem var hertekinn af aðskilnaðarsinnum í janúar eftir margra mánaða bardaga.
ÖSE segir þó að aðskilnaðarsinnar hafi ekki alltaf tryggt öryggi eftirlitsaðila. Þá hafa jarðsprengjur og átök komið í veg fyrir að ÖSE hafi getað sinnt skyldum sínum á ýmsum svæðum.
