Á Reykjanesbraut sem og flestum öðrum leiðum á Reykjanesi er hálka. Á stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu eru hálkublettir. Á Sandskeiði, Hellisheiði og Þrengslum er hálka og einnig er hálka eða snjóþekja á flestum öðrum leiðum á Suðurlandi. Krísuvíkurvegur er ófær, eins og Kjósarskarð.
Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.
Á Vesturlandi er hálka eða snjóþekja en þæfingsfærð er við Arnarstapa, Búðir og í Álftafirði.
Á Vestfjörðum er víða snjóþekja á vegum og skafrenningur á flestum fjallvegum. Þæfingsfærð er á Gemlufallsheiði, Steingrímsfjarðarheiði og á Hjallahálsi. Einnig er þæfingsfærð á Ennishálsi og í Bitrufirði á Ströndum.
Á Norðurlandi er hálka, snjóþekja eða hálkublettir á vegum og skafrenningur á Siglufjarðarvegi, Hófaskarði og Möðrudalsöræfum.
Hálka er á flestum fjallvegum á Austurlandi og þar að auki snjókoma á Fjarðarheiði. Greiðfært eða hálkublettir eru á láglendi.
