Fyrr í kvöld opnaði Hvammstangadeild Rauða kross Íslands fjöldahjálparmiðstöð í Reykjaskóla í Hrútafirði vegna ferðalanga sem komust ekki yfir Holtavörðuheiði vegna ófærðar. Fljólega kom í ljós að skólinn reyndist ekki nógu stór fyrir allan þann fjölda sem bíður eftir því að komast yfir heiðina og því var ákveðið að opna aðra hjálparmiðstöð í félagsheimilinu Ásbyrgi að Laugarbakka fyrir þá sem ekki komust að í Reykjaskóla.
Enn er ófært á Holtavörðuheiði en einhverjir hafa þó farið leiðina um Laxárdalsheiði og Heydal sem voru færar fyrr í kvöld en þar var þó mikil veðurhæð. Þá er einnig lokað á Bröttubrekku og Steingrímsfjarðarheiði en áfram má búast við hvassri suðvestanátt með éljum og skafrenningi um landið vestanvert og dregur ekki að ráði úr vindi fyrr en eftir miðnætti.
