Veður fer versnandi til kvölds um landið norðan- og austanvert en þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.
Lokað verður um Súðavíkurhlíð í nótt vegna snjóflóðahættu en staðan verður metin á ný í fyrramálið.
Lægja mun norðan til upp úr miðnætti, en á Vestfjörðum mun rofa til um tíma í nótt, en gengur í NNA 20-28 m/s snemma í fyrramálið með stórhríð og mikilli snjókomu.
Hálka er á Sandskeiði, snjóþekja og snjókoma er á Hellisheiði en hálkublettir í Þrengslum. Snjóþekja og hálkublettir eru víða á Suðurlandi og eitthvað um éljagang. Ófært er á Fróðárheiði. Hálka, hálkublettir og snjóþekja er viða á Vesturlandi og snjókoma í Borgarfirðinum.
Hálka eða snjóþekja er á vegum á Vestfjörðum og sumstaðar éljar. Ófært er á Steingrímsfjarðarheiði, Kleifaheiði, Klettshálsi, Hálfdán og Mikladal og lokað er um Ragnadalshlíð. Þungfært og stórhríð er á Þröskuldum, Gemlufallsheiði, Hjallahálsi og í Reykhólasveit.
Á Norðurlandi vestra eru hálkublettir mjög víða og óveður. Hálka og skafrenningur er á Þverárfjalli. Ófært og stórhríð er á Öxnadalsheiði.
Á Norðausturlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja og víða skafrenningur eða stórhríð. Ófært og stórhríð er í Víkurskarði, á Hólasandi og á Mývatnsöræfum eins á Hófaskarði og Hálsum.
Hálka og snjóþekja er á Austurlandi. Ófært og stórhríð er á Möðrudalsöræfum, Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði, Oddsskarði og Vatnskarði eystra. Þæfingur og skafrenningur er á Fagradal.
Snjóþekja og hálkublettir eru með suðausturströndinni og eitthvað um éljagang. Vegna vinnu í Múlagöngum aðfaranætur 26. febrúar má búast við umferðartöfum þar frá kl: 23:00 til klukkan sex að morgni.
Fylgstu með á veðurvef Vísis hér.

