Ófært og stórhríð er á öllum fjallvegum á Vestfjörðum og til Flateyrar og Suðureyrar. Þungfært er í Reykhólasveit og í Ísafjarðardjúpi. Þá hefur Súðavíkurhlíð og Kirkjubólshlíð verið lokað vegna snjóflóðahættu.
Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar. Stormur er nú á Vestfjörðum og búist er við honum víðar um land þegar líður á daginn. Hættustig vegna snjóflóða er enn í gildi á Patreksfirði og Tálknafirði. Þá er óvissustig vegna snjóflóða á Vestfjörðum.
Fylgjast má með veðrinu og veðurfréttum á veðurvef Vísis.
Hálka er á Sandskeiði og Hellisheiði n snjóþekja og þoka í Þrengslum. Snjóþekja er á Suðurlandi og óveður er á Mýrdalssandi. Þungfært er á Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði. Á Vesturlandi er hálka og Fróðárheiði er ófær. Snjóþekja er á Bröttubrekku og Holtavörðuheiði.
Öxnadalsheiði er þungfær og hálka og snjóþekja er á Norðurlandi vestra. Á Norðausturlandi er einnig hálka og snjóþekja. Ófært er á Möðrudalsöræfum, Hólasandi, Hófaskarði og Hálsum.
Sömu sögu er að segja af Austurlandi, þar sem einnig er hálka og snjóþekja. Ófært er á Möðrudalsöræfum, Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði og Vatnsskarði eystra. Hálka er á Fagradal og þæfingur á Oddskarði. Frá Fáskrúðsfirði og með suðuströndinni er snjóþekja.
Ófært og stórhríð á Vestfjörðum
Samúel Karl Ólason skrifar
