Holtavörðuheiði er lokuð tímabundið vegna bíla sem eru fastir og hamla mokstri en þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.
Heiðinni var lokað klukkan 15:00 í dag og er unnið að því að gera hana greiðfæra.
Á Suðurlandi er að mestu greiðfært á láglendi en hálka eða hálkublettir á flestum leiðum í uppsveitum og sumstaðar einhver éljagangur. Hálka er á Hellisheiði og hálkublettir í Þrengslum.
Hálka, snjóþekja eða hálkublettir eru á flestum leiðum á Vesturlandi. Þæfingsfærð, skafrenningur og stórhríð er á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku. Snjóþekja og éljagangur er í Borgarfirði en ófært á Fróðárheiði. Snjóþekja og stórhríð er á Laxárdalsheiði og hálkublettir og stórhríð í Staðarsveit.
Á Vestfjörðum er hálka, snjóþekja, snjókoma og skafrenningur. Ófært og stórhríð er á Klettshálsi. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Steingrímsfjarðar- og Kleifaheiði. Snjóþekja og skafrenningur er á Þröskuldum og Gemlufallsheiði en snjóþekja og stórhríð á Hjallahálsi.
Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er á flestum leiðum á Norður- og Austurlandi. Einnig snjóar og élja ásamt skafrenning norðanlands.
Varað er við grjóthruni á Siglufjarðarvegi og eru vegfarendur beðnir um að sýna sérstaka aðgát. Hálka og hálkublettir eru á Suðausturlandi.

