Mikill og hlýr SV-strengur er yfir landinu og fer hann vaxandi í dag. Niður brattar fjallshlíðar steypast sviptivindar þar sem hviðurnar geta orðið allt að 35 til 45 metrar á sekúndu á norðanverðu Snæfellsnesi, Vestfjörðum og Norðurlandi.
Samkvæmt ábendingu frá Veðurfræðingi verður hvassast á Norðurlandi síðdegis og snemma í kvöld.
Á utanverðum Tröllaskaga og við vestanverðan Eyjafjörð gæti styrkur í hviðum hæglega náð 45 til 55 metrum á sekúndu. Einnig í Skagafirði frá Varmahlíð á Sauðárkrók, sem og í Ljósavatnsskarði og Kinn.
Tilkynninguna frá Vegagerðinni um færð á landinu má sjá hér að neðan:
Vegir á Suður- og Vesturlandi eru að mestu greiðfærir þó er eitthvað um hálku eða hálkubletti í uppsveitum Suðurlands og Borgarfjarðar. Óveður á norðanverðu Snæfellsnesi.
Það er eitthvað um hálkubletti á Vestfjörðum. Óveður er á Mikladal og Hálfdán.
Vegir eru víða greiðfærir á Norðurlandi en þó er eitthvað um hálkubletti. Óveður á Siglufjarðarvegi, Vatnsskarði, Þverárfjalli, Mývatnsheiði og á Mývatnsöræfum.
Á Austurlandi eru hálkublettir nokkuð víða en greiðfært á Oddskarði. Óveður er á Biskupshálsi og á Sandvíkurheiði.
Greiðfært er að mestu með suðausturströndinni.
Undanfarna daga hefur hópur af hreindýrum verið við veg á milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar og eru vegfarendur beðnir að sýna aðgát.
Allt að 45 til 55 metra hviður
Samúel Karl Ólason skrifar
