Bíó og sjónvarp

Stuðmenn frá frumbernsku til efri ára

Valgerður Þ. Jónsdóttir skrifar
Hljómsveit allra landsmanna.
Hljómsveit allra landsmanna.
Saga Stuðmanna, elstu starfandi unglingahljómsveitar landsins, er rakin frá frumbernsku til efri ára í sjónvarpsheimildarmynd, sem handritshöfundarnir Ágúst Guðmundsson leikstjóri og Jón Þór Hannesson framleiðandi hafa undanfarið unnið að.

„Við höfum lagt töluverða vinnu í að grafa upp myndefni allt frá því Stuðmenn stigu fyrst á svið fyrir fjörutíu árum. Frá þeim tíma eru reyndar bara til ljósmyndir, sem við fengum bæði úr ljósmyndasöfnum í einkaeigu og á fjölmiðlum. Eftirleikurinn var auðveldari því hin síðari ár hafa Stuðmenn ekki stigið á svið án þess að vera ljósmyndaðir og filmaðir í bak og fyrir,“ segir Ágúst.

Ágúst Guðmundsson
Myndin er í tveimur þáttum, sá fyrri nefnist Fræi sáð í frjóan svörð og sá síðari Snyrtimennskan í fyrirrúmi, hvor um 50 mínútur að lengd. Kynni Ágústs af Stuðmönnum hófust 1982 þegar hann leikstýrði Með allt á hreinu og hefur hann bæði unnið og fylgst með sveitinni allar götur síðan. Við gerð Sögu Stuðmanna segist hann víða hafa leitað fanga, t.d. í smiðju RÚV og Stöðvar 2 þar sem hann fékk gamlar upptökur.

„Sævar Guðmundsson hefur hafist handa við klippivinnuna. Samsetningin er tímafrek, en vonandi tekst okkur að ljúka við myndina í lok ársins,“ segir Ágúst og upplýsir að hún byggist að miklu leyti á viðtölum við liðsmenn sveitarinnar sem og dyggustu aðdáendur hennar.

„Sumt um hljómsveit allra landsmanna hefur kannski ekki verið á allra vitorði,“ bætir hann íbygginn við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×