Innlent

Góð mæting í kröfugöngu þrátt fyrir slæmt veður

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Í kringum 300 manns tóku þátt í göngunni.
Í kringum 300 manns tóku þátt í göngunni. fréttablaðið/valli

„Það gekk rosalega vel og það var rosa góð mæting þrátt fyrir veður,“ segir Hildur Knútsdóttir rithöfundur, ein þeirra sem héldu utan um Loftslagsgöngu Reykjavíkur sem haldin var í gær en í kringum 300 manns fylktu liði.

Gengið var frá Drekasvæðinu svokallaða niður á Austurvöll. Þar var haldinn kröfufundur og þess krafist að gripið yrði til raunverulegra aðgerða til að hefta útblástur gróðurhúsalofttegunda.

Gangan er hluti af alþjóðlegri hreyfingu, Peoples Climate March, en um helgina voru boðaðir yfir 2.700 viðburðir í 160 löndum. Tilefnið er fundur sem Ban Ki-Moon, aðalritari SÞ, hefur boðað til í New York í vikunni. Þar á að liðka um fyrir alþjóðasamkomulagi um minnkaða losun gróðurhúsalofttegunda. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sækir fundinn.

Þetta er annar kröfufundurinn af þessu tagi sem haldinn hefur verið á landinu en seinast voru mótmæli haldin þegar síðasta sérleyfið til olíuleitar á Drekasvæðinu var veitt en 97 prósent loftslagsvísindamanna eru sammála um að loftslagsbreytingar séu mjög líklega af mannavöldum.

Fjölmörg samtök komu að skipulagningu göngunnar svo sem Vefritið Grugg, Náttúruverndarsamtök Íslands, Landvernd og Breytendur – Changemaker Iceland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×