Hún heimsótti Hjördísi á miðvikudaginn síðastliðinn og fékk drjúga stund með henni. Hún segir Hjördísi dvelja á álmu með mikilli öryggisgæslu þar sem fangar þurfa að lúta ströngum reglum.
Þórey segir að Hjördís þurfi að vera inni í klefa sínum í nítján klukkustundir á sólarhring. Þar sé hún eingöngu með klósett og sjónvarp. Hún sé í fangelsi með bæði körlum og konum og að hún hafi séð á samföngum hennar að margir þeirra hafi marga fjöruna sopið.
„Ég skil ekki hvernig hún nær að halda sér svona rólegri, ég gæti ekki höndlað þessar aðstæður svona vel,“ segir Þórey.
Hún segir Hjördísi þó ekki ætla að sækja um flutning innan fangelsisins en helst vildi hún fá að afplána varðhaldið í heimahúsi með staðsetningartæki um ökklann.
Hjördís var handtekin á Íslandi í byrjun mánaðar vegna ákæru um ólöglegt brottnám dætra sinna í ágúst síðastliðnum, eftir að dönsk dómsvöld höfðu dæmt dönskum barnsföður hennar forræðið.

Íslenska sendiráðið í Kaupmannahöfn lagði fram beiðni um að Hjördís fengi heimsókn en ferlið var bæði langt og flókið. Eftir níu daga í gæsluvarðhaldi fékk Þórey að fara í heimsókn og voru það fyrstu samskiptin sem Hjördís fékk að eiga við vin eða fjölskyldu eftir handtökuna.
„Þessi handtaka án dóms og laga hefur verið gagnrýnd af mörgum. Aðeins danskir lögmenn geta gert athugasemdir við hana en það hafa þeir ekki gert. Nefnd á vegum Evrópuþingsins, sem hefur kannað kærur foreldra vegna forsjársmála í Danmörku, hefur veitt danskri stjórnsýslu tvær áminningar fyrir ómannúðlega meðferð á Hjördísi og ellefu öðrum mæðrum, vegna handtöku og fangelsisvistar,“ segir Þórey.