Í kvöld kólnar aftur um vestanvert landið og má jafnvel búast við slydduéljum en þetta kemur fram í ábendingu frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar.
Eftir miðnætti kólnar enn frekar og er þá ísingarhætta talsverð á blautum vegum.
Það hefur mikið tekið upp á Suðurlandi og Hringvegurinn er auður frá Reykjavík allt austur að Vík. Hálka eða hálkublettir eru þó víða á öðrum vegum, jafnvel flughált á köflum. Þoka er á Hellisheiði og í Þrengslum.
Eins hefur hlánað mikið á Vesturlandi og vegir þar eru víðast auðir þótt hálkublettir séu á fáeinum vegum. Varað er við að vegna hlýindanna geti verið hætta á að klakastykki falli úr Búlandshöfða niður á veg.
Flughált er á köflum frá Brjánslæk austur undir Ódrjúgháls en annars er mikið orðið autt á Vestfjörðum.
Hálkublettir eru á köflum á Hringveginum á Norðurlandi en öllu meiri hálka á útvegum. Hálka er við Mývatn og á köflum þaðan austur yfir Mývatns og Möðrudalsöræfi. Varað er við miklum vindhviðum við Stafá á Siglufjarðarvegi.
Enn er flughált á fáeinum sveitavegum á Austurlandi en annars er víða hálka eða hálkublettir á aðalleiðum bæði á Austur- og Suðausturlandi.
Hálkublettir á köflum á Hringveginum
Stefán Árni Pálsson skrifar
