Víðsvegar um landið undirbýr fólk sig fyrir veðurofsann sem á að ganga yfir landið í kvöld. Einn þeirra er körfuknattleiksþjálfarinn og ferðamálafræðingurinn Fannar Freyr Helgason sem er búsettur á Akranesi.
Hann er búinn að festa eina hurðina á húsi sínu, sem snýr út á sólpall, ansi vel eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. „Já, þegar við fluttum inn var hurðin biluð og við erum ekki búin að gera nægilega vel við hana. Hún tekur á sig mikinn vind, vindáttin mun líklega standa beint á hana í kvöld. Mér fannst því ekki annað hægt en að festa hana algjörlega, til þess að bjóða ekki hættunni heim.“
Þegar blaðamaður Vísis heyrði í honum á sjöunda tímanum var veðrið rólegt á Akranesi. „Það var ansi hvasst upp úr hádegi, en nú hefur lægt. Maður bíður bara eftir óveðrinu í kvöld.“
Hvernig hefur þú búið þig undir veðurofsann? Sendu okkur myndir og línu á ritstjorn@visir.is.
