Bíó og sjónvarp

Mike Nichols látinn

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Með eiginkonu sinni, Diane Sawyer.
Með eiginkonu sinni, Diane Sawyer. vísir/getty
Óskarsverðlaunaleikstjórinn Mike Nichols er látinn, 83ja ára að aldri. Nichols lést í gærkvöldi.

Nichols fæddist í Berlín í Þýskalandi en flutti til Bandaríkjanna árið 1938. Hann hóf nám við háskólann í Chicago á sjötta áratug síðustu aldar en hætti í skólanum til að freista gæfunnar í skemmtanabransanum.

Nichols hlaut Óskarsverðlaunin árið 1967 fyrir að leikstýra kvikmyndinni The Graduate. Þá hlaut hann einnig tilnefningar til Óskarsverðlaunanna fyrir Who's Afraid of Virginia Woolf? árið 1966, Silkwood árið 1983 Working Girl árið 1988 og The Remains of the Day árið 1993. Þá er hann einn af tólf stjörnum sem hafa hlotið öll fjögur, stóru verðlaunin í skemmtanabransanum vestan hafs - Emmy-, Grammy-, Óskars- og Tony-verðlaunin.

Þá kom Nichols líka að uppfærslum á Broadway á ferlinum, þar á meðal Death of a Salesman og Annie. 

Nichols skilur eftir sig eiginkonu, fréttakonuna Diane Sawyer, en þau gengu í það heilaga árið 1988. Hann skilur einnig eftir sig þrjú börn, Daisy, Max og Jenny og fjögur barnabörn.

Jarðarför hans fer fram í þessari viku en eingöngu nánustu vinir og ættingjar fá boð í hana. Verið er að skipuleggja minningarathöfn sem fer fram síðar.

Fjölmargar stjörnur hafa minnst Nichols á Twitter eins og sést hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×