Sport

Fékk stærsta samning í sögu bandarískra íþrótta

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Giancarlo Stanton á fyrir salti í grautinn næsta áratuginn eða svo.
Giancarlo Stanton á fyrir salti í grautinn næsta áratuginn eða svo. vísir/getty
Giancarlo Stanton, 25 ára gamall hafnaboltaspilari sem leikur með Miami Marlins í bandarísku MLB-deildinni, skrifaði í gær undir stærsta samning í sögu bandarískra íþrótta og líklega í öllum heiminum.

Stanton gerði þrettán ára samning við Marlins og fær 25 milljónir dala (3,1 milljarð króna) á ári eða í heildina 325 milljónir dala (40,3 milljarða króna). Þetta kemur allt fram í frétt ESPN.

Hafnaboltaleiktíðin eru 162 leikir en þrátt fyrir þann fjölda leikja fær Stanton 155 þúsund dali á leik eða því sem jafngildir 19 milljónum króna fyrir hvern spilaðan leik. Ævintýralegar upphæðir.

Stanton er fastur hjá Miami næstu sex árin, en honum býðst að losa sig undan samningnum eftir sex ár hafi hann áhuga á því.

Þetta er í heildina mun stærri samningur en Venesúelamaðurinn Miguel Cabrera gerði við Detroit Tigers fyrir tímabilið í ár, en hann fær 292 milljónir dala næstu tíu árin. Cabrera fær þó 4,2 milljónum dala meira en Stanton á ári því hann gerði styttri samning.

Giancarlo Stanton var valinn 72. í nýliðavalinu árið 2007 og fékk í ár verðlaun sem besti sóknarleikmaður deildarinnar og þá náði hann flestum heimahafnarhlaupum (e. Home run).

Þessi samningur er ekki í takti við það sem Miami Marlins hefur verið að gera undanfarin ár, en heildarlaunakostnaður liðsins á nýliðnu tímabili voru 52,3 milljónir dala. Þetta er í fyrsta skipti sem liðið eyðir fúlgum fjár í leikmann undanfarin tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×