Kraftakarlinn Hafþór Júlíus Björnsson var gestur morgunþáttar FM957 í morgun og talaði mikið um hlutverk sitt í Game of Thrones.
Hafþór lék hið svokallaða Fjall í síðustu seríu af Game of Thrones og lék meðal annars í hrottafenginni bardagasenu þar sem hann kramdi höfuð Oberyn prins með berum höndum.
„Þetta er svo raunverulegt. Þetta er svo flott og vel gerðir þættir. Mér leið í alvöru eins og ég væri að kreista haus á manni,“ segir Hafþór í meðfylgjandi hljóðklippu og bætir við að hann hafi lifað sig mikið inní hlutverkið.
„Mér leið eins og ég væri í alvöru bardaga. Ég æstist allur upp og var tilbúinn að drepa hann.“
