Innlent

Ekki mælt með að ungmenni æfi íþróttir utandyra

Atli Ísleifsson skrifar
Brennisteinsdíoxíð mælist nú um og yfir 1.000 µg/m³ á höfuðborgarsvæðinu.
Brennisteinsdíoxíð mælist nú um og yfir 1.000 µg/m³ á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Ernir
„Í raun ættu krakkar á leikskólum ekki að vera úti,“ segir Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun, í samtali við Vísi. „Það er heldur ekki hægt að mæla með að ungmenni æfi íþróttir utandyra.“

Þorsteinn segir loftgæði nú vera slæm víðs vegar á Suðvesturlandi. „Nú er mengunin frá gosinu mest á höfuðborgarsvæðinu og hluta Suðurlands, það er frá Hveragerði og svo Suðvesturlandið og Hvalfjörður. Gildin á þessum stöðum mælast nú um og yfir 1.000.“

Þorsteinn segir að Umhverfisstofnun hafi verið að hvetja fólk til að skoða upplýsingasíðu stofnunarinnar um gosmengunina á landinu. „Þegar gildin fara yfir 600 þá á fólk almennt að forðast áreynslu utandyra. Viðkvæmir hópar alla vega. Heilbrigðir eiga líka að forðast óþarfa áreynslu utandyra, ekki fara út að hlaupa eða fjallgöngu.“

Gildin á höfuðborgarsvæðinu eru með þeim hæstu sem hafa þar mælst frá upphafi gossins. „Það hefur mest farið upp í 3.000 en það var á hluta úr nóttu. Það hafa komið toppar en þetta er með þeim stærri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×