Búast má við austan hvassviðri eða stormi við suðurströndina í kvöld og nótt. Vindhviður geta náð allt að 30-35 metrum á sekúndu. Einnig má búast við mikilli úrkomu SA lands.
Á Suðurlandi eru vegir að mestu greiðfærir, þó eru hálkublettir á örfáum vegum.
Vegir eru einnig mikið auðir við Faxaflóa en hálka er á Holtavörðuheiði og Fróðárheiði. Hálkublettir eru á Bröttubrekku.
Hálka er á öllum helstu fjallvegum á Vestfjörðum og eins á köflum á láglendi. Flughálka er á Klettshálsi.
Þæfingsfærð er á leiðinni norður í Árneshrepp á Ströndum. Á Norðurlandi er víðast hvar hálka eða snjóþekja.
Víða á Austurlandi er hálka eða hálkublettir. Greiðfært er frá Eskifirði suður um. Á Suðausturlandi er hálka á kafla vestan við Kirkjubæjarklaustur.
