Logi Gunnarsson fór fyrir sóknarleik íslenska körfuboltalandsliðsins í tapinu í Bosníu í undankeppni EM 2015 í Tuzla í kvöld en hann var stigahæstur í íslenska liðinu í leiknum með 18 stig.
Íslenska liðið tapaði leiknum með tíu stigum, 62-72, en vann sig aftur inn í leikinn í fjórða leikhlutann sem liðið vann 29-16. Íslenska liðið vann tvo leikhluta af fjórum í leiknum því liðið vann annan leikhlutann 17-12.
Logi hefur ekki skorað meira í Evrópuleik í tæp sjö ár eða síðan að hann skorað 21 stig á móti Lúxemborg í Lúxemborg 1. september 2007. Þetta var fimmti stigahæsti Evrópuleikur Loga sem hefur spilað 44 Evrópuleiki með íslenska landsliðinu.
Logi setti niður þrjá þrista í leiknum og varð þar með sjötti leikmaðurinn sem nær að skora 50 þrista í Evrópuleikjum með íslenska landsliðinu. Logi er nú í 4. til 6. sæti með 51 þrist ásamt þeim Páli Axel Vilbergssyni og Helga Jónasi Guðfinnssyni en hann vantar sex þrista til að ná Guðjóni Skúlasyni í þriðja sætinu.
Flest stig Loga Gunnarssonar í einum Evrópuleik:
29 stig - á móti Slóveníu í Laugardalshöll 29. nóvember 2000
24 stig - á móti Sviss í Njarðvík 29. ágúst 2001
23 stig - á móti Lúxemborg í Keflavík 13. september 2006
21 stig - á móti Lúxemborg í Lúxemborg 1. september 2007
18 stig - á móti Danmörku í Keflavík 3. september 2005
18 stig - á móti Bosníu í Tuzla 17. ágúst 2014
17 stig - á móti Georgíu í Laugardalshöll 29.ágúst 2007
17 stig - á móti Austurríki í Smáranum 29. ágúst 2009
