Íslenska körfuboltalandsliðið tapaði með tíu stiga mun á móti Bosníu í Bosníu í kvöld eins og áður hefur komið fram á Vísi. Þrátt fyrir tapið er þetta bestu úrslit íslenska körfuboltalandsliðsins á þessum slóðum.
Körfuboltamenningin er sterk í löndum fyrrum Júgóslavíu en Júgóslavar voru Heimsmeistarar í körfubolta þegar landsliðið liðaðist í sundur í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar.
Ísland hafði minnst áður tapað með 18 stiga mun á þessum slóðum en það var í leik á móti Svartfjallalandi fyrir tæpum tveimur árum.
Reyndar stefndi í "dæmigert" tap í löndum fyrrum Júgóslavíu eftir þriðja leikhlutann þegar staðan var orðin 56-33 fyrir Bosníumenn.
Íslensku strákarnir gáfust hinsvegar ekki upp, unnu sig inn í leikinn og unnu fjórða leikhlutann á endanum 29-16. Bosníumenn náðu þó að halda út og tryggja sér sigurinn.
Íslenska liðið fékk á sig bara 72 stig í leiknum í kvöld en hafði fengið á sig 85 stig eða meira í fyrstu sjö leikjum sínum á Balkanskaganum.
Evrópuleikir Íslands í löndum fyrrum Júgóslavíu (eftir stærð tapa):
10 stiga tap í Bosníu, 17. ágúst 2014 (62-72)
18 stiga tap í Svartfjallalandi, 24. ágúst 2012 (67-85)
25 stiga tap í Bosníu 25. febrúar 1998 (84-109)
29 stiga tap í Makedóníu 23. febrúar 2000 (65-94)
33 stiga tap í Slóveníu 1. desember 1999 (60-93)
34 stiga tap í Króatíu 2. desember 1998 (77-111)
44 stiga tap í Svartfjallalandi 26. ágúst 2009(58-102)
56 stiga tap í Serbíu 30. ágúst 2012 (58-114)
