Fyrstu viðbrögðin eftir fundinn í Höfða fyrir 28 árum voru vonbrigði, hann virtist hafa misheppnast. Næstu mánuðina á eftir fóru menn hægt og rólega að átta sig á að þar hafði meira gerst en virtist í fyrstu, og eftir því sem árin hafa liðið hefur styrkst sú mynd að fundurinn hafi verið einhver stærsti viðburður í stjórnmálasögu heims á síðari hluta tuttugustu aldar.

Fox-fréttastofan, sem mikið heldur upp á Ronald Reagan, er meðal þeirra sem fjallað hafa um bókina og í grein undir fyrirsögninni „Hvað gerði 1986 fundinn svo sérstakan?” segir höfundurinn að Reykjavíkurfundurinn hafi verið hápunkturinn á ferli Reagans, „his finest hour". Þegar menn skoði þau trúnaðarskjöl sem nýlega sé búið að létta leynd af sjáist að söguleg tímamót urðu í Reykjavík.
Sjónum er meðal annars beint að því nána persónulega sambandi sem náðist milli Reagans og Gorbatsjofs Sovétleiðtoga, sem var lykillinn að víðtækum afleiðingum fundarins.
Viðbrögðin fyrst á eftir voru þó afar misjöfn og vitnað er í Richard Nixon sem sagði að á eftir Jalta-fundinum í lok síðari heimstyrjaldar hefði enginn leiðtogafundur ógnað vestrænum hagsmunum jafn mikið og þessir tveir sólarhringar í Reykjavík.
Þá er vitnað í George Shultz utanríkisráðherra sem spurði Gorbatsjof löngu síðar hver vendipunkturinn hefði verið fyrir lok kaldastríðins. Án þess að hika svaraði Gorbatsjof: Reykjavík.