Skoðun

Að taka tillit til náttúrunnar

Margrét Lind Ólafsdóttir skrifar
Mikill fjöldi fólks nýtir náttúru og umhverfi á Seltjarnarnesi sér til heilsubótar og ánægju enda um einstök lífsgæði að ræða. Innan bæjarlandsins eru margar náttúruperlur og menningarminjar sem standa þarf vörð um, vegna sérstöðu þeirra og gildis til útivistar og upplifunar fyrir okkur sjálf og komandi kynslóðir. Mikil hugarfarsbreyting hefur orðið á undanförnum árum í umhverfismálum og sífellt fleiri gera sér grein fyrir mikilvægi þess að umgangast umhverfið af virðingu og náttúran fái að njóta vafans sem upp kemur. Umhverfismálin eru til úrlausnar vegna nútíðar og framtíðar.

Þetta á við um undirbúning og ákvarðanir um framkvæmdir sem hafa áhrif á náttúruna og vandlega þarf að huga að öllu sem það varðar. Umhverfisnefnd Seltjarnarness leggur áherslu á að þessu sé fylgt og kemur í erindisbréfi hennar kemur fram að eitt meginhlutverk nefndarinnar sé, „að leggja mat á umhverfisáhrif af völdum mannvirkjagerðar, landnýtingar, mengunar og efnistöku í sveitarfélaginu þar sem löggjöf kveður á um mat á umhverfisáhrifum“.

Eru Vestursvæðin geymslusvæði fyrir ódýrt efni?

Það þurfa því að liggja fyrir skýrar ástæður þegar ákvarðanir eru teknar sem spilla gersemum náttúrunnar. Því er ekki skrýtið að  margir Seltirningar velti vöngum yfir stærðarinnar moldarhaugum og grjóthnullungum sem gnæfa yfir Vestursvæðin norðanverð, sem eru e.k. sveit okkar Seltirninga, á svæði sem samkvæmt skipulagi á að njóta hverfisverndar. Umhverfisnefnd var gert að taka til umfjöllunar leyfi um haugsetningu á Vestursvæðum þar sem ódýr möl hafði fallið til og fljótt þurfti að bregðast við. Umhverfisvernd veitti tímabundið leyfi til að haugsetja þarna efni  með ströngum skilmálum.

Því miður var á engan hátt farið eftir skilmálum umhverfisnefndar. Magnið var margfalt meira en um var getið og á engan hátt fylgt skilmálum þar sem stórgrýti og moldarruðningur hefur komið í stað malarinnar sem nýtt er. Enn er gríðarlegt magn efnis á þessu svæði og því skilmálar nefndarinnar um magn og tímasetningar að engu virtir. Umhverfisnefnd Seltjarnarness hefur lagt ríka áherslu á í allri sinni ákvarðanatöku að faglega sé staðið að framkvæmdum með tilliti til umhverfisins.

Það er því miður ekki alveg þannig farið í ákvarðanatöku hjá bæjarstjóra og virðist sem skilaboðin séu að fylgja ekki skilyrðum fagnefnda og jafnvel að taka ákvarðanir í viðkvæmum málum án aðkomu þeirra, með þeim rökum  að efnið sé „ódýrt“ og komi bæjarbúum til góða. Þannig er virt að vettugi það vinnuferli sem fylgja ber og staðfest er í bæjarmálasamþykkt og erindisbréfum fagnefnda og þetta á við í fleiri tilfellum en einungis á Vestursvæðunum.

Hvernig stjórnsýslu viljum við?

Það er hættuleg pólitík þegar gengið er fram hjá fagnefndum og ákvarðanir teknar áður en þær hafa eitthvað um málið að segja. Það er líka hættuleg pólitík að virða að vettugi leyfi sem gefin hafa verið fyrir ákveðnum framkvæmdum eins og efnisflutningum á Vestursvæðin. Það er ennþá hættulegra ef við sofnum á verðinum og virðum þannig umhverfið að vettugi. Umhverfið er eign til framtíðar og varðar okkur öll og afkomendur okkar. Það skiptir ekki öllu máli að fá eitthvað „ódýrt“ á kostnað náttúrunnar, heldur að hafa vel útfærða framkvæmdaáætlun og frágengið skipulag og hafa umhverfissjónarmið að leiðarljósi. Þess sakna ég hjá bæjarstjóra Seltirninga.




Skoðun

Sjá meira


×