Haukar og ÍBV mætast í þriðja leik liðanna í úrslitum Olís deildar karla í handbolta í dag klukkan 16. Einstök stemning hefur verið á leikjunum sem hafa verið æsi spennandi.
Haukar unnu eins marks sigur í fyrsta leiknum á heimavelli fyrir framan rúmlega 1.700 áhorfendur. Leikurinn var gríðarlega spennandi og hefði sigurinn auðveldlega getað fallið ÍBV megin.
Önnur eins spenna var í troðfullu íþróttahúsinu í Vestamannaeyju sem tekur 900 manns á fimmtudagskvöldið. Jafnræði var með liðunum en heimamenn höfðu betur á lokasprettinum þar sem segja má að áhorfendur hafi verið áttundi leikmaður ÍBV liðsins.
Einstök stemning hefur myndast hjá stuðningsmönnum ÍBV í þessari úrslitakeppni, bæði í rimmunni gegn Val í undanúrslitum og í leikjunum tveimur gegn Haukum.
Stór hluti stuðningsmanna standa, hoppa og syngja allan tímann og fjöldi þeirra rífur sig úr treyjunum og eru berir að ofan í stúkunni að hætti hörðustu stuðningsmanna liða í ensku knattspyrnunni.
Skal engan undra að Elías Már Halldórsson hafi skorað á stuðningsmenn Hauka að gera slíkt hið sama í viðtali eftir fyrsta leikinn í úrslitunum.
Leikmenn og þjálfarar hafa keppst við að líkja stemningunni í Vestmannaeyjum við stemningu sem myndast á leikjum í Makedóníu og verður spennandi að sjá hvort Eyjamenn nái koma stemningunni eins vel til skila í Schenker höllinni á Ásvöllum í dag og hvort heimamenn svari kallinu, fylli húsið og lifi sig enn frekar inn í leikinn.
Staðan í einvíginu er 1-1 á vellinum en stuðningsmenn ÍBV hafa yfirhöndina á pöllunum. Frammistaðan á pöllunum getur ráðið úrslitum í jöfnum leikjum en engin ástæða er til annars en að reikna með áframhaldandi spennu í einvíginu.
Leikurinn í dag hefst klukkan 16:00 og verður í beini lýsingu boltavaktarinnar hér á Vísi.
