Körfubolti

NBA í nótt - Chicago og Houston enn á lífi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Patrick Beverley og James Harden fagna liðsfélaga sínum, Troy Daniels, eftir að hann skoraði sigurkörfu Houston gegn Portland í nótt.
Patrick Beverley og James Harden fagna liðsfélaga sínum, Troy Daniels, eftir að hann skoraði sigurkörfu Houston gegn Portland í nótt. Vísir/Getty
Þrír leikir fóru fram í úrslitakeppni NBA deildarinnar í nótt, einn í Vesturdeild og tveir í Austurdeild.

Houston Rockets minnkaði muninn í 2-1 í einvíginu gegn Portland Trail Blazers með fimm stiga útisigri, 121-116, eftir framlengdan leik. James Harden var stigahæstur í liði Houston með 37 stig, en hann tók einnig níu fráköst og gaf sex stoðsendingar. Dwight Howard kom næstur með 24 stig og tók 14 fráköst, en Houston fékk einnig mikilvægt framlag frá nýliðanum Troy Daniels sem skoraði gríðarlega mikilvæga þriggja stiga körfu í framlengingunni sem breytti stöðunni úr 116-116 í 119-116 þegar 11 sekúndur voru eftir af leiknum.

Damian Lillard var atkvæðamestur Portland-manna með 30 stig, sex fráköst og sex stoðsendingar. Næstur kom Frakkinn Nicolas Batum með 26 stig, níu fráköst og fimm stoðsendingar, en LaMarcus Aldrigde, sem skoraði 46 og 43 stig í fyrstu tveimur leikjunum, hafði hægar um sig í nótt og endaði leikinn með 23 stig og tíu fráköst.

Chicago Bulls minnkaði sömuleiðis muninn í 2-1 gegn Washington Wizards með þriggja stiga sigri, 100-97, í höfuðborginni. Mike Dunleavy jr. var stigahæstur í liði Chicago með 35 stig, en hann hitti úr átta af þeim tíu þriggja stiga skotum sem hann tók í leiknum. Jimmy Butler kom næstur með 15 stig, en Brasilíumanninum Nene í liði Washington var vísað af leikvelli snemma í fjórða leikhluta eftir viðskipti sín við Butler. Bradley Beal var atkvæðamestur Washington-manna með 25 stig (þar af 13 í lokaleikhlutanum) og John Wall kom næstur með 23 stig og sjö stoðsendingar.  

Jason Kidd og lærisveinar hans í Brooklyn Nets tóku forystuna í rimmunni við Toronto Raptors með 102-98 sigri á heimavelli sínum, Barclays Center. Joe Johnson skoraði mest í liði Brooklyn, eða 29 stig, en næstur kom leikstjórnandinn Deron Williams með 22 stig og átta stoðsendingar. Hjá gestunum skoraði Demar DeRozan 30 stig, tók fimm fráköst og gaf fimm stoðsendingar og Patrick Patterson skilaði 17 stigum og Kyle Lowry 15.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×