Erlent

Pistorius var á internetinu klukkustund áður en hann skaut kærustuna

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Pistorius grét í réttarsalnum í morgun.
Pistorius grét í réttarsalnum í morgun. vísir/afp
Spretthlauparinn Oscar Pistorius fór á internetið í síma sínum aðeins klukkustund áður en hann skaut Reevu Steenkamp, kærustu sína, til bana á heimi sínu í Pretoríu í fyrra. Áður sagði Pistorius að þau hefðu farið að sofa um tíuleytið að kvöldi en hringt var á sjúkrabíl klukkan 3:20 um nóttina, skömmu eftir að Steenkamp var skotin.

Verjendur Pistoriusar segja þó að móttaka tölvupósts, uppfærslur forrita í símanum eða opnar vefsíður geti gefið það til kynna að net símans sé í notkun þó að eigandi hans sé ekki að nota hann.

Þá sýnir yfirlit fimm símtöl á milli parsins síðdegis daginn fyrir hina örlagaríku nótt en öll voru þau undir fimm mínútum að lengd. Bent var á að af þeim rúmlega 1.700 textaskilaboðum sem parið sendi sín á milli hafi aðeins fjögur bent til ósættis.

Í gær kom fram að í einum textaskilaboðunum hafi Steenkamp viðurkennt það fyrir Pistoriusi að hún væri stundum hrædd við hann. Þau skilaboð sendi hún nokkrum vikum áður en hún lést.

Pistorius hefur verið ákærður fyrir morð en hann ber því við að hann hafi haldið að um innbrotsþjóf væri að ræða þegar hann skaut fjórum skotum í gegnum baðherbergishurð í svefnherbergi sínu. Steenkamp var þar fyrir innan og hæfðu þrjú skot hana, eitt í læri, annað í handlegg og það þriðja í höfuð.

Réttarhöldin munu standa yfir til 16. maí en upphaflega áttu þau að taka um þrjár vikur. Pistorius á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi verði hann sakfelldur.


Tengdar fréttir

Fréttaskýring: Kaldrifjað morð eða hræðilegt slys?

Dómari í borginni Pretoria í Suður-Afríku hefur ákveðið að taka mál spretthlauparans Oscar Pistorius fyrir á morgun, eftir að búið er að taka blóðsýni úr honum. Til stóð að morðákæra gegn honum yrði tekin fyrir hjá dómstólum síðdegis í dag.

„Stundum er ég hrædd við þig“

Farið var í gegnum farsíma Oscars Pistorius og unnustu hans Reevu Steenkamp, sem hann skaut til bana á Valentínusardag í fyrra.

Hver er Oscar Pistorius?

Suður-afríski spretthlauparinn Oscar Pistorius er grunaður um að hafa myrt kærustu sína af yfirlögðu ráði að morgni 14. febrúar. En hver er þessi margumtalaði maður?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×