Kevin Durant skoraði 42 stig fyrir Oklahoma City í nótt er liðið batt enda á sex leikja sigurgöngu Houston Rockets í NBA-deildinni í körfubolta með góðum heimasigri, 106-98.
Þetta er í ellefta sinn á leiktíðinni sem Durant skorar meira en 40 stig en hann er búinn að vera ótrúlegur í allan vetur. Russell Westbrook bætti við 24 stigum fyrir Oklahoma en James Harden, þeirra gamli samherji, skoraði 28 stig, tók 8 fráköst og gaf 9 stoðsendingar í liði Houston.
Oklahoma City endurheimti ekki efsta sæti vesturdeildarinnar því díselvélin í San Antonio heldur áfram að malla á fullu. Spurs-menn lögðu Chicago Bulls, 104-96, í nótt.
Tony Parker skoraði 20 stig fyrir gestina og tók 9 fráköst en stigahæstur var ManuGinobili sem kom inn af bekknum og skoraði 22 stig. D.J. Augustin var stigahæstur í liði Chicago með 24 stig.
Þetta er sjöundi sigurleikur San Antonio í röð en liðið er nú búið að vinna 47 leiki í heildina og stefnir hraðbyri að 50 sigrum eða meira í enn eitt skiptið undir stjórn GregsPopovich.
Í spilranum hér að ofan má sjá 10 flottustu tilþrif næturinnar.
Úrslit næturinnar:
Indiana Pacers - Boston Celtics 94-83
Detroit Pistons - Sacramento Kings 99-89
Chicago Bulls - San Antonio Spurs 96-104
Memphis Grizzlies - Portland Trail Blazers 109-99
Minnesota Tiberwolves - Milwaukee Bucks 112-101
Oklahoma City Thunder - Houston Rockets 106-98
Golden State Warriors - Dallas Mavericks 108-85
Staðan í deildinni.
