Körfubolti

Nash heldur áfram út af peningunum

Steve Nash.
Steve Nash. vísir/getty
Hinn fertugi leikstjórnandi LA Lakers, Steve Nash, spilar ekki meira í vetur og margir eru á því að hann eigi að leggja skóna á hilluna í sumar. Nash er ekki einn þeirra.

Nash á ár eftir af samningi sínum við Lakers og það ár mun gefa vel í aðra hönd. Hann fer ekkert leynt með að peningarnir eru ástæðan fyrir því að hann ætlar að halda áfram.

"Svona er bara raunveruleikinn. Ég mun ekki hætta því mig langar í peninginn. Það er heiðarlegt. Við erum alltaf að óska eftir heiðarlegum íþróttamönnum er það ekki," sagði Nash.

"Á sama tíma munu einhverjir segja að ég sé gráðugur. Ég sé búinn að fá mikinn pening á ferlinum og vilji græða enn meira. Já, ég þarf á því að halda að fá þennan pening. Það er miður ef einhverjum finnst það ömurlegt en ef sama fólk væri í mínum sporum þá myndi það gera nákvæmlega það sama."

Á átján ára ferli í NBA-deildinni er Nash búinn að þéna yfir 137 milljónir dollara. Launin á næsta ári munu setja hann yfir 146 milljónir á ferlinum.

"Ég gæti þóst vera meiddur allt næsta ár ef ég vildi og ekki gefið almennilega af mér. Ég er ekki þannig og ég mun gefa allt sem ég á næsta vetur."

Nash hefur aðeins spilað tíu leiki fyrir Lakers í vetur og þess utan hefur hann aðeins spilað 60 leiki af 146 síðan hann kom til félagsins.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×