Í dag hófst atkvæðagreiðsla á Krímskaganum um það hvort sjálfsstjórnarhéraðið eigi að lýsa yfir auknu sjálfstæði eða ganga til liðs við Rússland á ný. Rússneskt herlið dvelur enn á skaganum.
Frá því er greint á vef CNN að ekki er í boði að greiða atkvæði með því að skaginn verði áfram hluti af Úkraínu við óbreytt ástand. Bandaríkin og helstu stuðningsríki þeirra vilja meina að atkvæðagreiðslan sé kolólögleg og ríkjandi stjórnvöld í Úkraínu segja hana ekki í samræmi við stjórnarskrá landsins. Rússar styðja hins vegar atkvæðagreiðsluna að fullu og beittu í gær neitunarvaldi sínu til að koma í veg fyrir að Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna samþykkti ályktun um að mótmæla kosningunni í dag.
Það er þing Krímskagans sem stendur fyrir atkvæðagreiðslunni. Krímskaginn var hluti af Rússlandi allt til ársins 1954 og fjölmargir íbúa á svæðinu vilja sameinast stórveldinu á ný. Það er þó ekki algilt og greinir Guardian frá því í frétt sinni um málið að íbúar af íslamska þjóðarbrotinu Tatar ætli sér ekki að mæta á kjörstað í mótmælaskyni.

