Blað var brotið í bandarískri íþróttasögu í gær þegar Jason Collins varð fyrsti yfirlýsti homminn til þess að spila leik í NBA-deildinni.
Collins er fyrsti samkynhneigði maðurinn sem spilar leik í einum af stóru íþróttunum í Bandaríkjunum eftir að hafa komið út úr skápnum.
Hann hefur víða fengið jákvæð viðbrögð og þar á meðal frá einni stærstu stjörnu deildarinnar - Kobe Bryant.
"Það sem hann var að gera á eftir að hafa meiri áhrif en fólk heldur. Þetta mun hafa dómínó-áhrif sem eiga eftir að ná langt út fyrir íþróttaheiminn," sagði Kobe en hann hrósaði Collins einnig á Twitter er hann kom út úr skápnum.
"Hann er að sýna og sanna að það er í góðu lagi að vera maður sjálfur. Hann hefur hvetjandi áhrif á fólk í öllum stéttum. Þetta er frábært, hann er að setja stórkostlegt fordæmi."
