Körfubolti

NBA í nótt: Þríframlengt í Kanada

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Það vantaði ekki spennuna þegar Washington vann sigur á Toronto, 134-129, í þríframlengdum leik í NBA-deildinni í nótt.

Eftir jafna og spennandi viðureign náðu gestirnir úr bandarísku höfuðborginni loksins að síga fram úr í þriðju framlengingunni.

Trevor Ariza skoraði mikilvæga körfu þegar rúm mínúta var eftir og Washington missti ekki forystuna eftir það.

Marcin Gortat og John Wall skoruðu 31 stig hvor í leiknum en sá fyrrnefndi klárði ekki leikinn vegna villuvandræða. DeMar DeRozan var með 34 stig fyrir Toronto en hann spilaði í 58 mínútur í nótt.



Miami vann New York, 108-82. LeBron James var með 31 stig og Dwayne Wade 23 en meistararnir í Miami gerðu út um leikinn með góðum spretti í þriðja leikhluta.

James var með andlitsgrímu í leiknum eftir að hann nefbrotnaði á dögunum. Það kom þó ekki að sök þar sem þetta var hans fimmti leikur í röð með minnst 30 stig.

Carmelo Anthony skoraði 29 stig fyrir New York en fyrsta stigið kom reyndar ekki fyrr en á 22. mínútu leiksins.



Brooklyn vann Denver, 112-89. Paul Pierce var með átján stig en sigurinn var kærkominn fyrir Brooklyn sem tapaði með rúmlega 40 stiga mun fyrir Portland í fyrradag.

Þetta var einnig fyrsti sigur Brooklyn í Denver síðan 2007 en hjá heimamönnum var Randy Foye stigahæstur með fimmtán stig.

Indiana, sem er með bestan árangur allra liða í deildinni, vann Milwaukee, 101-96. Roy Hibbert var með 24 stig og tólf fráköst en þeir Paul George og Lance Stephenson átján stig hvor.

Milwaukee er með verstan árangur allra NBA-liða þetta tímabilið var með forystu í þriðja leikhluta en Indiana kláraði leikinn á lokasprettinum.

Úrslit næturinnar:

Indiana - Milwaukee 101-96

Toronto - Washington 129-134

Miami - New York 108-82

Denver - Brooklyn 89-112

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×