Enski boltinn

Balotelli til Arsenal?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli.
Mario Balotelli. Vísir/NordicPhotos/Getty
Slúðurfrétt dagsins í ensku blöðunum var án vafa frétt Metro-blaðsins um að ítalski framherjinn og vandræðagemsinn Mario Balotelli gæti verið á leiðinni til Arsenal í sumar.

Í síðasta mánuði var tilkynntur samstarfsamningur milli Arsenal og þýska íþróttavöruframleiðandans Puma og það á sinn þátt í því Balotelli sé hugsanlega á leiðinni á Emirates.

Arsenal vantar framherja og það væri ekki slæmt fyrir knattspyrnustjórann Arsene Wenger að fá til sín 23 ára og afar hæfileikaríkan leikmann sem vantar helst að fullorðnast.

Metro-blaðið hefur það eftir ítölskum fjölmiðum að Puma ætli að hjálpa Arsenal við að redda þeim 40 milljónum punda sem AC Milan vill fá fyrir leikmanninn.

Mario Balotelli er eitt af andlitum Puma og þýski íþróttaframleiðandinn hefur mikinn áhuga á að sameina hann og nýjasta félagið sem spilar í Puma-búningnum. Puma gæti því komið með allt að fimmtán milljónum punda af kaupverðinu samkvæmt sömu fréttum.

Balotelli hefur verið frábær með AC Milan síðan að hann kom þangað frá Manchester City en hann hefur skorað 25 mörk í 38 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×