Handbolti

Sá markahæsti í liði mótherja Íslands

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kiril Lazarov í eldlínunni í Danmörku.
Kiril Lazarov í eldlínunni í Danmörku. Vísir/AFP
Ljóst er að strákarnir okkar í karlalandsliði Íslands í handbolta þurfa að hafa góðar gætur á Kiril Lazarov í viðureign liðanna í milliriðli 1 á Evrópumótinu í Danmörku í dag.

Örvhenta skyttan, sem er á launaskrá hjá stórliði Barcelona á Spáni, hefur skorað 31 mark á mótinu úr 62 skottilraunum sínum. Það svarar til 50 prósenta skotnýtingu en kappinn hefur líka tekið langflest skot allra á mótinu. Enginn á listanum yfir tuttugu markahæstu menn mótsins hefur lakari skotnýtingu en Makedóníumaðurinn skotfasti.

Lazarov hefur eins marks forskot á Hvít-Rússann Siarhei Rutenka sem hefur skorað 30 mörk í 49 tilraunum.

Guðjón Valur Sigurðsson er markahæsti leikmaður Íslands með 28 mörk í 32 skotum sem skilar okkar manni í þriðja sæti á listanum. Aron Pálmarsson er í 10. sæti með 20 mörk og Ásgeir Örn Hallgrímsson er í 13. sæti með 18 mörk. Listann í heild sinni má sjá hér.

Leikur Íslands og Makedóníu hefst klukkan 15 og verður í beinni útvarps- og textalýsingu á Bylgjunni og hér á Vísi. Guðjón Guðmundsson og Henry Birgir Gunnarsson eru með puttann á púlsinum í Herning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×