Búlgarir, mótherjar íslenska körfuboltalandsliðsins í undankeppni EM 2015 sem hefst á sunnudaginn eru heldur búnir að sækja sér liðsstyrk fyrir átökin á móti íslenska liðinu. Serbinn Branko Mirkovich er nefnilega kominn með búlgarskt ríkisfang og hann átti stórleik í fyrsta leik.
Branko Mirkovich er fæddur 1982 eins og margir í íslenska liðinu en hann fékk búlgarskan ríkisborgararétt í febrúar síðasliðnum. Hann er 190 sm bakvörður sem spilar nú með Tsmoki-Minsk í Hvíta-Rússlandi.
Búlgaría vann 84-68 útisigur á Rúmeníu í fyrsta leik riðilsins í gær og var Branko Mirkovich með 20 stig, 8 fiskaðar villur, 6 stoðsendingar, 5 fráköst og 3 stolna bolta í leiknum en hann hitti úr 6 af 9 skotum sínum utan af velli og öllum sex vítunum.
Tvíburabræðurnir Deyan og Kaloyan Ivanov voru líka öflugir, Deyan með 27 stig og 8 frásköst en Kaloyan með 15 stig og 5 fráköst.
Ísland og Búlgaría mætast í Búlgaríu á sunnudaginn en liðin þrjú í riðlinum berjast um eitt laust sæti í undanúrslitum. Ísland spilar fyrst útileiki sína en fær síðan tvo heimaleiki í Laugardalshöllinni, 13. ágúst á móti Búlgaríu og 16. ágúst á móti Rúmeníu.
