Körfubolti

Lykilmaður Bulls verður ekki með í oddaleiknum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luol Deng og Joakim Noah.
Luol Deng og Joakim Noah. Mynd/NordicPhotos/Getty
Brooklyn Nets og Chicago Bulls mætast í kvöld í Brooklyn í hreinum úrslitaleik um sæti í 2. umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta. Chicago Bulls komst í 3-1 í einvíginu en Nets-liðið hefur unnið tvo leiki í röð og náð að jafna metin í 3-3.

Chicago Bulls var án Derrick Rose í vetur en komst engu að síður í úrslitakeppnina. Liðið hefur verið einkar óheppið með meiðsli og veikindi í þessu einvígi.

Luol Deng verður ekki með í oddaleiknum og þá er áfram óvissa um þátttöku Kirk Hinrich en þeir hafa báðir misst af síðasta leik. Þetta eru tveir af bestu varnarmönnum liðsins og gríðarlega mikilvægir fyrir Tom Thibodeau þjálfara.

Kirk Hinrich er meiddur á kálfa en Luol Deng glímir við veikindi og þurfti að leggjast inn á sjúkrahús vegna þeirra. Það var flensa að ganga í liði Chicago Bulls og bæði Nate Robinson og Taj Gibson spiluðu veikir í síðasta leik.

Það er þó ljóst að það er ekki hin dæmigerða flensa sem hrjáir Luol Deng og hann fylgist því með leiknum af sjúkrabeðinu í kvöld.

Leikurinn fer fram í Barclays Center sem er nýjasta NBA-höllin. Brooklyn Nets hét áður New Jersey Nets en liðið náði því aldrei að spila oddaleik (Leik númer 7) á þeim 35 árum sem félagið hafði aðsetur í New Jersey.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×